Leikskólaráð eftir okkar reynslu með taubleyjubarn á leikskóla.
Það er margt sem þarf að hafa í huga þegar kemur að taubleyjum fyrir leikskóla eða aðra daggæslu.
Fyrst og fremst viltu gera þetta eins auðvelt og hægt er fyrir starfsfólk svo þau sem þekkja ekki taubleyjur, mikli þetta ekki fyrir sér og setji bleyjuna ekki vitlaust á.
Við notum alltaf vasakerfi, þá annaðhvort vasableyjur eða AI2/vasableyjur og notum þá vasann. Þá erum við með staydry efni svo vætan haldist frá bossanum. Mér persónulega finnst óþarfi að flækja þetta með því að nota AI2 kerfi (þar sem þú skiptir bara um innlegg) og frekar að gera þetta eins svipað og bréfbleyjum og hægt er afþví að það er það sem flestir þekkja.
Þú vilt hafa bleyjuna rakadræga svo hún endist lengi þar sem reikna má með færri skiptingum en þú myndir gera heima.
Til þess að gera bleyjuna rakadræga er mjög gott að hafa bambus/bómul og hemp innlegg í bleyjunni. Það er ein rakadrægasta blanda sem við þekkjum og hefur dugað mjög vel í leikskólalífinu.
Við sendum 4-5 bleyjur í byrjun vikunnar og fyllum svo á daglega. Þá sendum við jafn margar bleyjur og komu heim daginn áður.
Það fer svo einn stór PUL poki með tveimur hólfum með í leikskólann svo skítugar bleyjur eru í einu hólfi og svo geta skítug föt farið í hitt hólfið, frekar en að fá skítugu fötin heim í plastpoka.
Auðveldast er sennilega að vera með taubleyjur með riflás en það hefur aldrei verið vandamál þegar við sendum bleyjur með smellum í leikskólann. Það er sniðugt að nota svokallaðar smellulokur á bleyjurnar sem eru með smellum, sem loka þá þeim smellum sem ekki á að nota. Með því ert þú að merkja hvernig smella á bleyjunni á barnið. Annars getur þú líka smellt bleyjunni í þeirri stillingu sem sem passar á barnið og látið vita að svona á hún að vera á barninu.
Við segjum við starfsfólk leikskólans að kúkableyjur mega fara beint í PUL pokann og þau þurfa ekki að spá í þeim neitt sérstaklega, við gerum það bara þegar við fáum bleyjurnar heim.
Gott er líka að bjóða starfsfólkinu uppá smá kennslu. Það auðveldar þeim að gera þetta rétt og sýnir líka hversu lítið mál þetta er.