Þvottaleiðbeiningar

Þetta eru þær þvottaleiðbeiningar sem virka vel fyrir okkur og við mælum eindregið með.

Jafnóðum
  • Smella innleggjum úr skeljum og losa þau úr skelinni. Festa flipa á riflás niður svo þeir festist ekki við önnur innlegg í þvottavélinni.
  • Ef barnið fær einungis brjóstamjólk eða þurrmjólk þarf ekki að skola kúkinn úr, en við mælum þó með að setja kúkableyjur í vélina í lok dags á stutt skol, svo það komi síður blettir.
  • Ef barnið er farið að fá fasta fæðu skaltu skola helstu ummerki um kúk úr bleyjunni áður en þú setur hana í þvottavélina. Gott er að nota bara kalt vatn til þess. Því lengur sem kúkurinn er í bleyjunni, því líklegra er að komi blettir.
  • Við mælum með að geyma óhreinar bleyjur í XL poka fram að þvottadegi, en einnig er í góðu lagi að geyma þær í fötu eða bala.
Á þvottadegi
Við hvetjum þig til þess að þvo annan hvern dag.
Gott er að tæma XL pokann með því að bretta hann niður að innihaldi pokans og þrýsta svo á botninn svo innihaldið fari í vélina og pokinn svo á eftir. Við mælum með því að renna fyrir pokann þannig að hann sé öfugur í þvotti.
Einnig þarf að gæta þess að vélin sé um mað bil ¾ full. Hægt er að fylla upp í með litlum handklæðum eða þvottapokum en passa að setja ekki of stór handklæði með. Það er vegna þess að þau koma í veg fyrir að bleyjurnar nái nægum núning. Best er að bæta öðru í vélina eftir að búið er að skola bleyjurnar (fyrsta skref).
Best er að þvo bleyjurnar svona:
  1. Fyrst stillir þú á stutt, kalt skol (um 30 mín).
  2. Þegar því er lokið seturðu rétt magn af þvottaefni í hólfið fyrir aðalþvott (Skoðaðu þvottaefnið sem þú notar og veldu það magn af þvottaefni sem er fyrir skítugasta þvottinn). 
  3. Þá stillir þú á 60 gráðu heitt bómullar prógram með forþvotti og hefur það eins langt og hægt er, eða í kringum 3-4 tíma. Varist að nota ECO prógram þar sem það sparar vatnið full mikið fyrir taubleyjuþvott.
  4. Þegar því er lokið er gott að setja aftur á stutt, kalt prógram til þess að vera viss um að sápan sé farin úr bleyjunum.
Þá er þvotti lokið og hefst þurrkun.
Öll innlegg og þurrkur mega fara í þurrkarann. Það er fljótleg og þægileg leið til að þurrka innleggin og þau mýkjast líka við það. Ef þú átt ekki þurrkara getur þú sett innleggin á heitan ofn, eða hengt þau á snúru úti eða inni.
Ef þú velur að setja innleggin í þurrkara gætir þú þurft að setja hann tvisvar af stað, því oft heldur skynjarinn í þurrkaranum að innleggin séu þurr þegar þau eru enn rök. Oft getur verið betra að stilla á eins langan tíma og þurrkarinn býður upp á, frekar en að nota bómullarprógram þar sem þurrkarinn stoppar sjálfur þegar hann heldur að allt sé þurrt. Einnig gæti hjálpað að setja þurrt handklæði með í þurrkarann, en það getur í einhverjum tilfellum flýtt fyrir þurrktíma.
Allar skeljar og poka skal hengja til þerris. Varist að setja það á heitan ofn, þurrka í beinu sólarljósi eða setja í þurrkarann - þar sem það getur skemmt PUL efnið.
Þvottaefni
Við mælum eindregið með Balja þvottadufti eða Nimble taubleyjuþvottaefni sem fást hjá okkur. Ef þú kýst að nota önnur þvottaefni þá skaltu kanna fyrst hvort þitt þvottaefni hentar taubleyjum, því mikilvægt er að bleyjurnar verði tandurhreinar eftir hvern þvott. Ef þú ert í vafa með þvottaefni, hafðu endilega samband. 
Ekki má nota mýkingarefni við þvott á taubleyjum þar sem að það getur gert þær vatnsheldar og skemmt þær. Ef að mýkingarefni er notað við annan þvott þarf að hreinsa þvottaefnishólfið og skola vélina áður en taubleyjuþvottur er hafinn.
Ef eitthvað er óvíst eða þú hefur einhverjar spurningar máttu gjarnan senda okkur skilaboð á Facebook eða Instagram eða tölvupóst á evey@evey.is
Til baka