Skilmálar fyrir taubleyjuleigupakka
Þegar leigutaki bókar taubleyjupakka hjá Evey verslun samþykkir hann um leið skilmála þessa. Leigutaki tekur þær vörur á leigu sem teknar eru fram í innihaldslýsingu hvers pakka fyrir sig.
Leigusali
Evey Verslun
Kt. 2007934049
VSK númer 120052
Sandavað 5, 110 Reykjavík
Evey@evey.is
Sendingarkostnaður
Þú hefur val um að sækja leigupakkann í heimahús í Norðlingaholti, eftir samkomulagi, sem er endurgjaldslaust, eða fá hann sendan innanlands með Dropp eða Flytjanda og greiða fyrir það samkvæmt verðskrá Dropp. Vörur eru póstlagðar 1-3 dögum fyrir upphaf leigutímabils.
Þú færð sendan tölvupóst þegar leigupakkinn er tilbúinn til afhendingar eða hefur verið sendur af stað með pósti.
Afhending leigupakka
Leigupakkar verða almennt afhentir að minnsta kosti degi fyrir upphaf leigutímabils. Ef um ófyrirsjáanlegar aðstæður er að ræða sem seinkar afhendingu á leigupakka, munum við hafa samband og finna lausn sem hentar þér. Ef um seinkun er að ræða að hálfu Evey verslunar hefst leigutímabil ekki fyrr en þú hefur fengið pakkann í hendurnar. Ef þú velur að sækja leigupakkann komumst við að samkomulagi um tímasetningu afhendingar. Þá hefst leigutímabil á umsömdum afhendingartíma, hvort sem pakkinn er sóttur þá eða seinna. Ef leigupakkinn er ekki sóttur á umsömdum tíma og ekki óskað eftir að sækja hann seinna áskilur Evey verslun sér þann rétt að leigja pakkann út að nýju.
Ef um ófyrirsjáanlegar aðstæður er að ræða þar sem við getum ekki afhent þér leigupakkann á þeim tíma sem þú hefur bókað munum við hafa samband við þig og finna lausn á því.
Evey verslun sér til þess að innihald leigupakkans sé í góðu standi og tilbúið til notkunar áður en hann er afhendur.
Verð, skattar og gjöld
Verð á netinu getur breyst án fyrirvara. Verðið fyrir leigupakkann er með virðisaukaskatti.
Prufupakkinn
Leiguverðið á prufupakkanum er 3.500 kr m. vsk, fyrir 14 heila daga (sem samsvarar 250 kr á dag). Greitt er fyrir leiguna þegar prufupakkinn er bókaður.
Með pakkanum fylgja þvottaleiðbeiningar og leiðbeiningar um notkun.
Nýburableyjupakkinn
Leiguverðið á nýburableyjupakkanum er 15.900 kr m vsk, fyrir 30 heila daga (sem samsvarar 530 kr á dag). Þegar pakkinn er bókaður greiðir leigutaki 3.975 kr í staðfestingargjald. Eftirstöðvarnar, 11.925 kr, eru greiddar fyrir afhendingu. Leigutaki ber ábyrgð á því að greiða eftirstöðvarnar tímanlega svo afhending leigupakkans seinki ekki. Ef greiðslur berast ekki áskilur Evey verslun sér þann rétt að leigja pakkann út að nýju.
Með pakkanum fylgja þvottaleiðbeiningar og leiðbeiningar um notkun.
Afbókun og breytingar á leigutímabili
Prufupakkinn
Ef leigutaki afbókar með fjögurra daga fyrirvara eða meira fæst leiguverðið endurgreitt, en annars ekki.
Ekki er hægt að stytta leigutímabilið og ekki er endurgreitt fyrir þá daga sem ekki eru nýttir.
Hægt er að óska eftir breytingu á upphafi leigutímabils með a.m.k. þriggja daga fyrirvara og Evey verslun kemur til móts við þær óskir ef mögulegt er.
Nýburableyjupakkinn
Ef leigutaki afbókar með viku fyrirvara eða meira fæst staðfestingargjaldið endurgreitt, en annars ekki.
Hægt er að óska eftir breytingu á upphafi leigutímabils með a.m.k. þriggja daga fyrirvara og Evey verslun kemur til móts við þær óskir eins og mögulegt er. Einnig er hægt að óska eftir því að stytta eða lengja leigutímann, en hann er þó að lágmarki 2 vikur.
Skil á leigupakka
Leigutaki skuldbindur sig til að meðhöndla innihald leigupakkans vel og þvo taubleyjurnar samkvæmt þvottaleiðbeiningum sem fylgja leigupakkanum. Leigutaki skuldbindur sig jafnframt til að skila innihaldi leigupakkans hreinu og að engar vörur vanti í leigupakkann.
Komi í ljós þegar leigupakka er skilað að eitthvað vantar í hann eða hefur skemmst, er leigusala heimilt að gjaldfæra andvirði þess sem uppá vantar á leigutaka. Ef leigutaki finnur það sem vantaði í pakkann þegar honum var skilað er honum heimilt að skila því til leigusala og fá endurgreiðslu. Leigusala er þó heimilt að rukka leigu fyrir það tímabil sem varan var týnd.
Evey verslun áskilur sér rétt til bótakröfu að andvirði leigupakkans sé honum ekki skilað í lok leigutímabils og leigutaki hafi ekki haft samband til að semja um annað.
Útbrot eða ofnæmi
Evey verslun ber ekki ábyrgð á bleyjuútbrotum, sárum eða öðrum óþægindum sem kunna að tengjast taubleyjunotkuninni. Mikilvægt er að fylgja meðfylgjandi þvottaleiðbeiningum til að minnka líkur á að bleyjurnar valdi slíkum kvillum. Gott er að þvo bleyjurnar fyrir notkun, þó þú fáir þær hreinar í hendurnar.
Trúnaður
Seljandi heitir kaupanda fullum trúnaði um allar upplýsingar sem hann gefur upp í tengslum við leigu á taubleyjupökkunum. Upplýsingar verða ekki undir neinum kringumstæðum afhentar þriðja aðila.
Lög og varnarþing
Öll ákvæði þessa skilmála ber að túlka í samræmi við íslensk lög. Komi upp ágreiningur milli aðila verður slíkur ágreiningur einungis leystur fyrir íslenskum dómstólum. Samningur þessi er í samræmi við íslensk lög. Rísi mál vegna hans skal það rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Samningur þessi gildir frá því að leigupakki er bókaður og þar til honum er skilað.